Closer
Fór í þynnkunni í bíó gær á Closer, stór góð mynd, sem kom skemmtilega á óvart!!Closer
Í Closer fáum við að kynnast fjórum manneskjum eða tveim pörum, þessi elskar þennan en sá elskar annan sem svo elskar þá báða, ef svo má segja! Í stuttu máli er þetta mynd um sambönd, ást og svik.
Fjórar stórstjörnur leika í þessari mynd, Natalie Portman, Jude Law, Julia Roberts og Clive Owen. Allir leikararnir standa sig með prýði, og ekki að undra að Owen og Portman séu bæði tilnefnd til Óskarsverðlauna (og Owen hlaut raunar Golden Globe verðlaunin um daginn fyrir túlkun sína á lækninum knáa, Larry).
Closer er byggð á leikriti Patricks Marbers og hefur hinn kunni leikstjóri Mike Nichols, sem frægastur er líklega fyrir myndina The Graduate, tekið að sér að færa leikverkið á hvíta tjaldið. Afraksturinn er einstaklega vel gerð kvikmynd, áhugaverð, spennandi og oft bráðfyndin. Söguþráðurinn er þéttur og vel skrifaður og yfirleitt sagt minna en meira og áhorfendum leyft að fylla upp í eyðurnar, og oftar en ekki liggja svörin alls ekki í augum uppi og undir hverjum og einum komið hvaða skilning menn leggja í myndina eða einstök atriði. Það er því ekki annað hægt að segja en að Closer sé að vissu leyti krefjandi mynd.
Closer er eins og glugginn að einkalífi persónanna og er afar nærgöngul. Þótt stundum sé erfitt að horfa á hana þá getur maður samt ekki slitið sig frá henni og aldrei er ljóst hvert stefnir hverju sinni. Frábær mynd í alla staði, ágeng og persónuleg en samt eitthvað svo eðlileg og áreynslulaus.
- María Margrét Jóhannsdóttir
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home